Annað árið í röð er Ísland í 21. sæti af 64 í samkeppnishæfniúttekt IMD. Ísland er enn á svipuðu róli og undanfarin ár en árið 2017 var Ísland í 20. sæti á listanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands.

Líkt og svo oft áður er Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna en Svíþjóð, Danmörk og Noregur raða sér í þeirri röð í sæti tvö til fjögur. Finnar eru í ellefta sæti og Ísland, sem fyrr segir, í því 21. sæti. Sviss er á toppnum að þessu sinni en Singapúr, sem var á toppnum í fyrra, fellur um fimm sæti. Að mati Viðskiptaráðs er áhyggjuefni hve mikið Ísland er að fjarlægjast hin Norðurlöndin.

Svíþjóð er aftur á móti einn af hástökkvurunum í ár og er í 2. sæti. Styrkur innlends efnahags og atvinnustigs skiptir þar máli ásamt aukinni skilvirkni hjá hinu opinbera. Einnig kemur Svíþjóð betur út í þáttum sem varða vinnumarkað og þá sérstaklega að mati stjórnenda þar í landi.

„Áhrif heimsfaraldursins á íslenska hagkerfið hafa verið óvenju mikil miðað við önnur hátekjuríki, sem endurspeglast í niðurstöðunum. Þó má greina jákvæða þróun í mörgum undirþáttum sem og tækifæri til úrbóta,“ segir hjá Viðskiptaráði.

„Í efnahagslegri frammistöðu er Ísland í 55. sæti en hækkar um þrjú sæti milli ára. Þar togast á betri útkoma á innlendu hagkerfi og lægra atvinnustig. Skilvirkni hins opinbera stendur í stað og mælist Ísland í 17. sæti. Þar er hið sama uppi á teningnum að áhrif heimsfaraldursins togast á við jákvæða þróun. Hækkandi vaxtakostnaður hins opinbera (49. sæti) vegur t.d. á móti því að mat stjórnenda á áhrifum Seðlabankans hefur batnað til muna,“ en í mati stjórnenda á Seðlabankanum er Ísland nú í 9. sæti en var áður í því 61.

Af öðrum jákvæðum tíðindum af Íslandi þá hækkar Ísland um fimm sæti hvað fjármögnun varðar, það er 27. sæti í stað 32. sæti, en þar hafa nýskráningar á hlutabréfamarkaði og vaxtalækkanir haft mikil áhrif. Hvað samfélagslega innviði varðar þá er Ísland áfram í sterkri stöðu, í því níunda og hækkar um átta sæti. Skilvirkni atvinnulífsins batnar, þar er Ísland í 14. sæti, en vinnumarkaðurinn er veikleiki.