Samtök atvinnulífsins (SA) kynntu á fundi í morgun nýtt rit sem nefnist Baráttan um fólkið. Ritið fjallar um alþjóðavæðingu vinnumarkaðarins og er ein niðurstaða þess að Ísland standi Norðurlöndunum í heild að baki við að takast á áskoranir hnattvæðingarinnar.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, kynnti helstu niðurstöður ritsins. Þar nefndi hann m.a. að alþjóðleg samkeppni snúist ekki einvörðungu um vörur og verð heldur líka um hæft starfsfólk.  Há laun og hátt verðlag einkennir Ísland að hans sögn og fyrir vikið er kaupmáttur landsmanna heldur slakur miðað við OECD-ríki.

,,Ísland er í Eurovision sæti hér eða nr. 17," sagði Hannes.

Ritið kemur einnig inn á aldurssamsetningu þjóðarinnar en íslendingum á vinnumarkaði mun fjölga hægt á næstu áratugum. Þar sem stórir árgangar hverfa fljótlega af vinnumarkaði án þess að sambærilegur fjöldi bætist við, er ljóst að mati SA að erlent vinnuafl verði meginforsenda hagvaxtar í framtíðinni.

Hannes sagði helsta veikleika Norðurlanda vera smæð þeirra en hana þyrfti að vega upp með áherslu á hugvit, þróun og rannsóknir, og menntun.