Hagkerfi Íslands hefur gengið í gegnum talsverðan uppgang undanfarin ár og benda hagtölur til þess að Ísland standi öðrum Norðurlandaþjóðum framar á mörgum sviðum. Líkt og fram kom í síðasta Viðskiptablaði hafa skuldir ríkissjóðs lækkað umtalsvert undanfarin ár og eru nú 51% af landsframleiðslu (VLF).

Með svipuðu áframhaldi mun skuldastaða íslenska ríkisins fljólega verða sambærileg því sem sést í Danmörku og Svíþjóð, eða um 35% af VLF. Skuldir norska ríkisins eru einvörðungu 20% af VLF en skuldir Finnlands eru hins vegar 64%.

Einungis Norðmenn hafa það betra

Verg landsframleiðsla á mann var mest í Noregi á fyrsta ársfjórðungi 2016, eða 2,1 milljónir króna. Þar næst kemur Ísland með VLF upp á 1,65 milljónir á mann og í kjölfarið fylgja Danmörk með 1,53 m.kr. á mann og Svíþjóð með 1,49 m.kr. á mann. Finnland rekur lestina með VLF að verðmæti 1,34 milljónir króna á mann á fyrsta ársfjórðungi. Miðað við hagvaxtartölur kemur Ísland þó til með að nálgast Noreg og fjarlægjast hin Norðurlöndin enn frekar með sama áframhaldinu.

Einungis Svíþjóð var með meiri hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama árstíma í fyrra, eða 4,6%. Hagvöxtur var á sama tíma 4,2% á Íslandi, 1,6% í Finnlandi, 1% í Noregi og neikvæður um 0,3% í Danmörku. Eftir samdrátt árin 2009 og 2010 og dræman hagvöxt næstu tvö ár á eftir hefur hagkerfi Íslands vaxið um 15,2% frá árinu 2013, meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð, miðað við að hagvöxtur ársins verði í takt við hagvöxt fyrsta ársfjórðungs.

Danmörk og Finnland reka lestina með afar dapran hagvöxt yfir sama tímabil, eða 1,8% og 0,9%. Finnland lenti í þriggja ára samfelldum samdrætti árin 2012-2014 og þá lenti Danmörk í vægum samdrætti árin 2012 og 2013. Að frátöldum 0,3% samdrætti árið 2012 hefur Svíþjóð staðið sig mjög vel þrátt fyrir umtalsvert atvinnuleysi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .