Markaðsvirði skráðra hlutabréfa í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar ásamt Vodafone nemur nú 20,9% af vergri framleiðslu eða sem nemur 382 milljörðum króna. Greining Íslandsbanka segir þennan mælikvaða oft notaðan til að bera saman stærð hlutabréfamarkaða á milli landa. Hlutfallið er gjarnan yfir 40% í iðnvæddum ríkjum og er því hlutfallið hér enn fremur lágt.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar er bent á að í Noregi nemi hlutfallið 45%, 56% í Frakklandi, 87% í Svíþjóð og 104% í Bandaríkjunum.

Greiningardeildin bendir á að í lok árs 2011 hafi markaðsvirði skráðra hlutabréfa numið 275 milljörðum króna eða sem nemur 16,95% af landsframleiðslu. Markaðsvirði þeirra félaga í dag sem skráð voru á markað í lok árs 2011 hefur hækkað um 26 milljarða króna og nemur nú 301 milljarði króna. Þetta á við um félögin Icelandair Group, Marel, Össur og Haga. Nýju félögin sem hafa komið á hlutabréfamarkað síðan þá eru Eimskip, Vodafone og Reginn.