*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 30. júní 2018 09:33

Ísland taki sæti Bandaríkjanna

Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum að Ísland gefi kost á sér til að taka það sæti sem losnaði í mannréttindaráði SÞ við úrsögn Bandaríkjanna.

Ritstjórn

Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum að Ísland gefi kost á sér til að taka það sæti sem losnaði í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna við úrsögn Bandaríkjanna úr ráðinu nýverið. Því er gert ráð fyrir að Ísland verði eitt í kjöri í aukakosningum til ráðsins sem haldnar verða í allsherjarþinginu í næsta mánuði. 

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur aðsetur í Genf. 47 ríki sitja í ráðinu, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG). Fyrr í þessum mánuði sögðu Bandaríkin sig úr ráðinu og við það losnaði eitt af sætum Vesturlandahópsins. Fljótlega náðist samstaða innan hópsins um að Ísland gæfi kost á sér til að fylla sætið út tímabil Bandaríkjanna, til ársloka 2019. Ekki er búist við að önnur ríki bjóði sig fram í sérstökum aukakosningum sem haldnar verða í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um miðjan næsta mánuð. Einfaldan meirihluta atkvæða þarf til að ná kjöri.

„Þrátt fyrir að hafa staðið utan mannréttindaráðsins hefur Ísland látið þar að sér kveða í krafti áheyrnaraðildar. Sjálfur hef ég ávarpað mannréttindaráðið í tvígang, fyrstur íslenskra utanríkisráðherra, síðast í vor þar sem ég áréttaði gagnrýni á stjórnvöld á Filippseyjum. Stuðningur vinaþjóða okkar við að Ísland taki sæti í ráðinu felur í sér viðurkenningu á okkar störfum þar hingað til,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra. 

Engin útgjöld hafa fylgt framboði Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Fari svo að Ísland fái sæti í ráðinu kemur það aðallega í hlut fastanefndar Íslands í Genf að sinna þeim verkefnum sem því fylgir.