Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði fyrir 2-0 fyrir Nígeríu í Volgograd en leiknum lauk nú fyrir skömmu. Ahmed Musa, framherji Leicester City skoraði fyrsta mark leiksins á 49. mínútu. Hann bætti svo öðru marki við á 75. mínútu. Musa líður greinilega vel í Rússlandi en hann skoraði 6 mörk í 10 deildarleikjum með CSKA Moskva meðan hann var á láni hjá félaginu á seinnu hluta síðasta leiktímabils. Ísland fékk vítaspyrnu á 82. mínútu eftir að nýsjálenskur dómari leiksins dæmdi víti eftir að hafa endurskoðað atvikið með hjálp myndbanddómara. Gylfi Þór Sigurðsson brenndi hins vegar af spyrnunni.

Næsti leikur liðsins fer fram á næst komandi þriðjudag þegar Ísland mætir Króatíu í síðasta umferð D-riðils. Leikurinn sem hefst klukkan 18 að íslenskum tíma fer fram í Rostov. Má segja að þar séum við Íslendingar á heimavelli en þeir Ragnar Sigurðsson, Björn Bergmann Sigurðarson og Sverrir Ingi Ingason leika með liðinu í borginni.

Íslensku strákarnir verða að sigra Króata ætli þeir sér að eiga möguleika að komast í sextán liða úrslit. Vinni Ísland Króatíu er liðið samt ekki komið öruggt áfram. Vinni Nígería Argentínu er liðið fallið úr leik. Geri liðin jafntefli þarf Ísland að vinna með  þremur mörkum til að komast áfram. Vinni Argentína sinn leik þarf Ísland að vinna Króatíu með jafn miklum eða meiri markamun og Argentína vinnur Nígeríu. Nánari útlistun á möguleikum Íslands og hvað gerist þegar lið eru jöfn að stigum má sjá hér .