Ísland hefur staðfest þátttöku sína í Heimssýningunni í Shanghai í Kína árið 2010 þrátt fyrir núverandi efnahagsástand.

Dow Jones fréttaveitan greinir frá þessu í dag og hefur eftir skipuleggjendum sýningarinnar.

„Þrátt fyrir efnahagsástandið hefur Ísland ákveðið að taka þátt í sýningunni í þeirri von að árið 2010 og sýningin verði snúningspunktur fyrir landið,“ hefur Dow Jones eftir Hang Hao, framkvæmdastjóra Heimssýningarinnar í Shanghai.

„Fjármálakrísan hefur skaðað mörg ríki en þrátt fyrir það eru þau staðráðin í að taka þátt í sýningunni,“ segir Hao.

Um 183 þjóðir taka þátt í sýningunni ásamt 45 alþjóðlegum samtökum og fyrirtækjum. Bandaríkjamenn hafa þó ekki staðfest þátttöku sína þar sem enn er verið að afla fjármagns til að taka þátt. Dow Jones greinir frá því að samkvæmt bandarískum lögum er ekki heimilt að nota opinbera sjóði til að fjármagna slíka þátttöku.