Skuldbindingar Kýótó-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda verða framlengdar til ársins 2020, samkvæmt ákvörðun 18. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem lauk í dag í Doha í Katar. Fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008-2012, lýkur nú í árslok. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Ísland hyggst uppfylla sínar skuldbindingar annars vegar með þátttöku í evrópsku viðskiptakerfi um losunarheimildir og hins vegar með því að framkvæma aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem samþykkt var í ríkisstjórn 2010. Áætlunin gerir ráð fyrir um 30% minnkun nettólosunar í geirum utan viðskiptakerfisins til 2020, miðað við 2005. Ísland mun taka þátt í umræðum með ríkjum ESB og Króatíu á næstunni um frekari útfærslu hinna sameiginlegu skuldbindinga á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar, samkvæmt fréttatilkynningu.

Með ákvörðuninni í Doha er tryggt að takmarkanir á losun verða framlengdar á nýju tímabili, 2013-2020. Alls taka 37 ríki á sig bindandi skuldbindingar á nýju tímabili; allt Evrópuríki utan Ástralía. Samtals eru þau með um 15% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, sem er mun minna hlutfall en á 1. tímabili.