Líklegt þykir að Jon Yong Jin, fyrrverandi sendiherra Norður-Kóreu á Íslandi og Svíþjóð, verði settur af. Hann er nú sendiherra landsins á Kúbu. Jon Yong Jin er mágur Jang Song Taek, eins af valdamestu mönnum Norður-Kóreu, sem Kim Jong Un svipti öllum titlum nýverið og setti út í kuldann. Jang Song Taek, sem er giftur frænku Kim Jong Un, er sagður hafa tryggt ættmennum sínum og vandamönnum fínar og valdamiklar stöður í embætissmannakerfinu innan og utan Norður-Kóreu.

Bandaríska dagblaðið The Los Angeles Times segir Jang Song Taek m.a. hafa komið ættingjum sínum í störf á vegum hins opinbera, s.s. fyrirtækja í utanríkisverslun sem heyra undir n-kóreska herinn. Greinin skrifar Barbara Demick, sem hvað þekktust er hér á landi sem höfundur bókarinnar Engan þarf að öfunda .

Blaðið segir máli sínu til stuðnings að einn af ættingjum Jang Song Taek, sem var sendiherra Norður-Kóreu í Malasíu, hafi nýlega verið kallaður heim.

Stjórnmálaskýrendur benda á að þótt Jang Song Taek hafi stutt Kim Jong Un þegar hann fótaði sig sem einræðisherra eftir að faðir hans og þáverandi einræðisherra Norður-Kóreu lést fyrir tveimur árum þá hafi hann stutt Kim Jong Nam, eldri bróður núverandi einræðisherra. Eldri bróðurnum var óvænt ýtt til hliðar í hrókeringunum fyrir tveimur árum. Talið er að sá búi í Makaó undir verndarvæng kínverskra stjórnvalda.