Fáir Íslendingar eru jafn samofnir efnahagssögu Íslands á 20. öldinni og Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri. Jóhannes tók á móti blaðamanni Frjálsrar verslunar á heimili hans í Laugardalnum til að ræða ein mestu umskipti sem urðu í íslensku efnahagslífi á 20 öld, viðreisnarárin. Viðreisnarstjórnin tók við völdum árið 1959 og tók til við að afnema víðtækasta haftakerfi sem þá þekktist í Vestur-Evrópu með það að leiðarljósi að taka upp frjálsan markaðsbúskap á ný hér á landi. „Við vorum úr öllum takti við okkar eðlilega umhverfi,“ segir Jóhannes um ástandið á þeim tíma.

Átök um það hve opið og frjálst alþjóðlega viðskiptahagkerfið eigi að vera hafa ekki verið jafn ofarlega á baugi í heimsmálunum í áratugi og þau eru í dag. „Það hefur alltaf verið einhver andstaða en hún er kannski alvarlegri núna en hún hefur verið í langan tíma,“ segir Jóhannes. Almennt standi Ísland vel. „En það er mikilvæg forsenda velgengni okkar að vera hluti af opnu kerfi.“ Hann bendir á að nafn blaðsins, Frjáls verslun, passi ágætlega við efni viðtalsins.

Færð markaðinn aldrei með þér

Til að skilja viðreisnarárin þurfi að hafa í huga hin djúpstæðu áhrif síðari heimsstyrjaldarinnar á íslenskt þjóðlíf. „Á styrjaldarárunum streymdi hér inn gjaldeyrir svo að bæði bötnuðu lífskjör stórkostlega og í lok stríðsins höfðum við eignast gífurlegan gjaldeyrisvaraforða. Nýsköpunarstjórnin reyndi að nota að nokkurn hluta hans til þess að endurbyggja fiskveiðiflotann sem hafði farið illa á stríðsárunum og hafði í raun og veru ekki verið endurnýjaður síðan fyrir kreppuna 1930.“ Innflutningurinn til landsins frá stríðslokum jókst svo stórkostlega að gjaldeyrisvaraforðinn var uppurinn á skömmum tíma, svo að við tók alvarleg gjaldeyriskreppa sem ekki var reynt að leysa fyrr en í lok áratugarins. „Þá er fyrst reynt að grípa til marktækra ráðstafana þess að reyna að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapinn með gengisbreytingu og nýrri efnahagsstefnu sem Benjamín Eiríksson var höfuðhöfundurinn að.“

Árið 1950 var gengi krónunnar fellt um 43% samhliða því að dregið var úr víðtækum höftum á innflutningi. Aðgerðirnar gengu þó skemur en stefnt hafði verið að og náðu ekki tilgangi sínum að fullu. Jóhannes telur að líklega hefði þurft að fella gengið enn meira. „Innflutningsverðlag hækkaði mjög mikið eftir Kóreustríðið og viðskiptakjörin versnuðu svoleiðis að gengið verður smám saman óraunhæft. Þá var brugðist við með því að greiða útflutningsbætur sem fjármagnaðar voru með háum gjöldum á það sem taldar voru munaðarvörur. Úr þess varð víðtækt flókið krefi skömmtunar og margs konar gengis bæði á innflutnings- og útflutningshliðinni. „Gallinn á slíku kerfi er að það skapar aldrei traust og nær því aldrei markmiði sínu. Efnahagsöflin snúa alltaf á móti því. Þú færð markaðinn aldrei með þér.“

Undir lok sjötta áratugarins sköpuðust aðstæður í stjórnmálunum til að stokka upp haftakerfið. „Eftir skammlífa minnihlutastjórn mynduðust skilyrði árið 1959 til samstarfs Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins um algera stefnubreytingu. Meginatriðið þeirrar stefnu var að koma á markaðsbúskap á jafnvægisgengi og geta afnumið innflutningshöftin sem var gert fljótlega eftir gengisbreytinguna.“ Einnig voru afnumin höft á öðrum sviðum, til að mynda á fjárfestingu þar sem höfðu verið miklar takmarkanir með leyfisveitingakerfi á öllum framkvæmdum. Jóhannesi og Jónasi H. Haralz hagfræðingi hefur verið eignað að vera helstu hugmyndafræðingur viðreisnarstefnunnar. „Það má segja að við höfum fyrst og fremst séð um að móta framkvæmd á þessari nýju stefnu sem var í raun og veru ekki annað en að taka upp samskonar hagstjórn og var búin að ryðja sér til rúms í Evrópu á þeim tíma og að taka þátt í alþjóðaviðskiptum á frjálsum grundvelli.“

Móðuharðindi sem aldrei komu

Viðreisnarstjórnin felldi formlegt gengi krónunnar um 57% um leið og hún kom til valda árið 1960. Raungengislækkunin var þó aðeins brot af þessu því að um leið voru felld niður öll gjöld og uppbætur haftakerfisins. Auk þess var ráðist í aðgerðir til að reyna að halda aftur af verðhækkunum innanlands. Komið var í veg fyrir of öra útlánaaukningu hjá bönkunum með verulegri vaxtahækkun og síðar með bindiskyldu á innlánsstofnanir. Þá þurfti að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum með því að takmarka opinberar framkvæmdir auk þess að rjúfa þurfti víxlverkun launahækkana og verðlagshækkana. Gagnrýnendur Viðreisnarstefnunnar töldu fullvíst að stjórninni myndi mistakast. Slagorð andstæðinga var að verið væri að skapa „móðuharðindi af mannavöldum“.

„Það voru ekki allir sammála þessum aðgerðum. Í fyrsta lagi var það rótgróin trú margra á þessum tíma að það væri bókstaflega ekki hægt að hafa hér frjáls viðskipti. Það hlyti að leiða til þess að gjaldeyriseign bankanna gengi til þurrðar á skömmum tíma. Margir gerðu sér ekki grein fyrir möguleikunum til að tryggja jafnvægi í viðskiptum með aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum. Ein af fyrstu ráðstöfununum var mikil vaxtahækkun sem að sjálfsögðu varð umdeild, en leiddi til mikillar innlánsaukningar í bönkum og sparisjóðum. Gagnrýnin beindist sérstaklega að aðgerðum í peningamálunum, að vextir hefðu verið hækkaðir og komið var á bindingu í bönkunum til að halda aftur að útlánaaukningu. Það var aðallega deilan um þau atriði sem voru kveikjan að því að andstæðingar stjórnarinnar fór að kalla efnahagsástandið móðuharðindi af mannavöldum. Þetta voru þó í reynd miklir uppgangstímar þangað til síldarstofninn hrundi árið 1968,“ segir Jóhannes.

„Allan þennan tíma tókst að forðast til að grípa til neinna ráðstafana til þess að takmarka innflutning eða setja á aðrar markaðshömlur sem var mikilvægt og mikill pólitískur sigur. Því margir trúðu því ekki lengi vel að hægt væri að leysa hlutina með þessum hætti.“

Nánar er fjallað um málið í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .