Ljósin eru að kvikna eitt af öðru. Viðsnúningur í ferðaþjónustu er hafinn og það af meiri krafti en flestir reiknuðu með,“ skrifar Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), í færslu á Facebook.

Hún bendir á að Ferðamálastofa hafi í byrjun júlí gefið út hæstu spá sem sést hefur um fjölda erlendra ferðamanna til Íslands í ár, eða 890 þúsund talsins. „Fyrir nokkrum vikum þótti spá Landsbanka Íslands um 800.000 mjög bjartsýn. Ég hef talað um 1.000.000 farþega og held mig við þá tölu,“ segir Bjarnheiður.

Jafnframt hafi verð á gistingu og öðrum þjónustuþáttum hækkað síðan í fyrra sem hún telur vísbendingu um að nú sé að skapast grundvöllur til sjálfbærrar verðlagningar. „Ísland þarf ekki lengur að vera á útsölu.“

Bóka dýrar ferðir á síðustu stundu

Bjarnheiður segir að almennt sé fólk í ferðaþjónustunni sammála um að eftirspurnin í greininni aukist með hverjum degi en sé þó ólík því sem áður þekktist. Mikið sé um bókanir á síðustu stundu, jafnvel á löngum og dýrum ferðum með mikilli og í sumum tilvikum óvenjulegri þjónustu innifaldri.

Sumir ferðamenn sem streyma til landsins eru að koma í ferðir og viðburði sem var frestað í fyrra en aðrir koma hingað í ljósa aðstæðna og velja öruggan og spennandi áfangastað, að sögn Bjarnheiðar.

„Margir tala um að ferðamenn geri nú auknar kröfur, öðruvísi kröfur - þeir vilja einfaldlega að fyrsta ferðin eftir faraldurinn verði fullkomin. Margir eru þar af leiðandi til í að eyða meiru en þeir hafa gert áður, vilja fara á jökla og drekka kampavín, fara í þyrluflug og panta jafnvel ákveðinn lit á hestum fyrir útreiðartúrinn,“ segir Bjarnheiður. Hún bendir þó á að hópferðir séu ekki búnar að taka við sér í sama mæli en vonir standa til þess að ágústmánuður marki þar tímamót.

Bílaleigubílar uppseldir og erfitt að manna stöður

Bjarnheiður segir að með þessari jákvæðu stöðu fylgi þó ófyrirséðar áskoranir. Illa gangi að fá fólk til starfa, „hverjar svo sem ástæðurnar eru fyrir því“. Fyrir vikið sé slegist um starfsfólk í sumum greinum ferðaþjónustunnar.

„Þannig eru dæmi um, að ekki sé hægt að opna aftur hótel og gististaði einfaldlega vegna þess að ekki er hægt að manna þá. Það er verulegt áhyggjuefni, ef okkur tekst ekki að mæta allri þeirri eftirspurn sem er fyrir hendi.“

Þá segir hún að nánast allir bílaleigubílar á landinu séu uppseldir út ágústmánuð. Engar lausnir séu á því vandamáli því það eru einfaldlega ekki til neinir bílar. „Þetta er flöskuháls, sem einnig getur haft áhrif á dreifingu erlendra ferðamanna um landið.“

„Eins og staðan er núna, þurfum við að hafa fókusinn alveg skýran, leyfa ferðaþjónustunni að rísa upp úr öskustónni í friði og koma í veg fyrir að þættir í rekstrarumhverfi hennar verði íþyngjandi - heldur þvert á móti. Við megum ekki missa sjónar á því að til skamms tíma er endurreisn ferðaþjónustunnar mikilvægasti þátturinn til þess að viðhalda lífsgæðum á landinu og stoppa upp í gatið í ríkisfjármálunum.“ segir Bjarnheiður að lokum.