Aðild Íslands að Evrópusambandinu var meginþema Iðnþings sem haldið var í gær á vegum Samtaka iðnaðarins. Í upphafsræðu sinni sagði Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, óviðunandi að umræðum um ESB væri sífellt slegið á frest af stjórnmálamönnum. Einnig kom fram í ræðu Helga að sífellt fleiri forystumenn fyrirtækja hefðu lýst áhuga á að sækja um aðild, íslenska myntkerfið væri of smátt og Seðlabankinn hefði ekki nægt afl til að vera nauðsynlegur bakhjarl.

Helgi sagði að Íslendingar hefðu tekið upp 75% af regluverki sambandsins og vísaði þar í rit samtakanna um Evrópumálin sem kom út í tilefni þingsins. „Við látum okkur samt lynda að hafa mjög takmörkuð áhrif og eigum ekki neina talsmenn í öllum þeim stofnunum hins evrópska samstarfs sem móta framtíð okkar. Ef við tækjum skrefið til fulls og fengjum aðild að Evrópusambandinu yrði stærsta breytingin sú að við gætum orðið aðilar að Myntbandalagi ESB og tekið upp evru, að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Samhliða því tækju Íslendingar þátt í að móta stefnu og taka ákvarðanir innan ESB,“  sagði Helgi.

Þá sagði Helgi að ekki dygði að blanda saman umfjöllun um skammtíma úrlausnarefni og langtíma stefnumörkun. „Við teljum óviðunandi að málinu sé sífellt frestað vegna þess að það taki svo langan tíma að leiða það til lykta, eða þá að aldre  sé rétti tíminn til að fjalla um það vegna ýmissa skammtíma vandamála sem fyrst þurfi að greiða úr! Slík svör duga ekki lengur og engin þörf er á að blanda saman umfjöllun um skammtíma úrlausnarefni og langtíma stefnumörkun,“ sagði Helgi í ræðu sinni.

Helgi sagði að ekki væri eftir neinu að bíða, Íslendingar væru tilbúnir og þekking innan kerfisins í Brussel væri mikil.

Nánar er fjallað um Iðnþingið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .