Ísland er með afgerandi forystu þegar horft er til þess hversu duglegt fólk er við það að stofna fyrirtæki og styrkir raunar þá forystu sem það hafði árið 2006. Bandaríkin eru í öðru sæti líkt og árið 2006 en Írland hoppar upp um tvö sæti milli áranna 2006 og 2007 í þriðja sæti. Ísland og Bandaríkin hafa þó nokkuð afgerandi forystu. Noregur fellur hins vegar niður listann úr því þriðja í sjötta sæti.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Global Entrepreneurship Monitors (GEM) sem greint er frá í Børsen en í samanburðinum er horft til hlutfallslegs fjölda þeirra í hverju landi sem eru að stofna fyrirtæki auk þeirra sem reka fyrirtæki sem eru þriggja og hálfs árs gömul eða yngri.

Danir eru afar óánægðir með að komast ekki ofar á listann en þeir hafa unnið markvisst að því að auðvelda fólki að hefja rekstur eigin fyrirtækja og hafa stefnt að því að vera í forystu á þessu sviði. "Tölurnar sýna að stöðnun hefur um árabil ríkt í Danmörku þega kemur að því að stofna ný fyrirtæki. En á sama tíma hefur hlutfallið vaxið hjá þjóðunum í kringum okkur, segir Thomas Schøtt sem sér um danska hluta rannsóknarinnar fyrir GEM.