Samkvæmt korti sem byggt er á árlegum gögnum frá Credit Suisse eru Íslendingar langsamlega ríkasta þjóð Evrópu, og tæplega tvöfalt ríkari en Svisslendingar. Kortið sem sýnir miðgildi auðs á hvern fullorðinn einstakling í öllum löndum Evrópu í Bandaríkjadölum sýnir að Íslendingar eiga 445 þúsund dali, eða sem samsvarar 46 milljónum íslenskra króna, en Svisslendingar sem koma næstir eiga 229 þúsund dala, eða sem jafngildir tæpum 24 milljónum íslenskra króna.

Talan er fengin með því að leggja saman fjármálaeignir og aðrar eignir og draga skuldir frá en þó er tekið fram með stjörnumerkingu að vegna lélegri gagna geti matið verið ónákvæmara heldur en hjá öðrum þjóðum. Nokkur önnur lönd heldur en Ísland eru þannig merkt, má þar nefna Lúxemborg, Lettland, Svartfjallaland, Bosníu, Albaníu, Makadóníu, Serbíu, Tyrkland, Modavíu,Hvíta Rússland og loks Úkraínu, í þessari röð eftir auði.

Síðastnefndur tvö ríkin eru jafnframt þau fátækustu af öllum ríkjunum, ef horft er fram hjá gæðum gagnanna, en í Hvíta Rússlandi er miðgildi eigna hvers fullorðins einstaklings 900 dalir en 100 í Úkraínu. Það samsvarar rúmlega 10 þúsund íslenskum krónum.

Ísland kemur einnig mjög vel út í samanburði við mörg önnur lönd, þar má nefna Japan með 124 þúsund dali, Bandaríkin með 56 þúsund dali, Kína með 6.700 dali, Brasilía með 4.600 dali og Indland með 1.300 dali. Kortið má sjá á vef Independent , en einnig annað kort sem sýnir samanburð samkvæmt hefðbundnari mælikvörðum um kaupmátt í mismunandi löndum, en þar vantar Ísland inn í kortið, sem og hin stjörnumerktu ríkin auk Sviss.