Ísland er í 8. sæti á lista yfir þau ríki sem standa hvað best í vígi hvað varðar nýsköpun samkvæmt mælingu European Innovation Scoreboard. Í fyrri mælingu var Ísland í 13. sæti á listanum og hefur því stokkið upp um fimm sæti á milli mælinga. Þetta benda Samtök iðnaðarins á í frétt sinni.

Þar er rifjuð upp stefna Samtaka iðnaðarins í nýsköpunarmálum, en þar er markmiðið að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að nýsköpun. Einn af mælikvörðunum er að Ísland verði meðal fimm efstu landa í European Innovation Scoreboard árið 2020, og virðist Ísland á réttri leið miðað við það markmið.

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins, segir þessa mælingu til marks um það að raunhæft sé að Ísland komist í efsta flokkinn fyrir árið 2020.

Á listanum eru 37 ríki Evrópu og annarra nágrannaríkja sem eru mæld í samanburði við hvort annað. Sviss trónir á toppnum með hæsta skorið, þar á eftir kemur Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Holland. Neðst á listanum er Úkraína. Í efstu sætunum eru sjö lönd sem teljast vera leiðtogar í nýsköpun, ríkin sem eru í sætunum þar fyrir neðan teljast vera sterk í nýsköpun og þar á meðal er Ísland. Önnur lönd sem teljast í sama flokki og Ísland eru Austurríki, Lúxemborg, Belgía, Noregur, Írland, Ísrael, Frakkland og Slóvenía.