Ísland var valið sem erlendur áfangastaður ársins af samtökum finnskra ferðablaðamanna á MATKA, stærstu ferðakaupstefna Norður Evrópu, sem hófst í morgun í Finnlandi.

Þorleifur Þór Jónsson tók á móti verðlaununum fyrir hönd Íslandsstofu og í tilkynningu er haft eftir honum að verðlaunin sýni hvað Ísland sé búið að koma sér vel á kortið í Norður Evrópu. Fjórtán ár séu síðan reglubundið flug hófst frá Helsinki til Íslands, fyrst eingöngu sem sumarflug, en núna sé flogið allt árið og allt að ellefu brottfarir á viku yfir háönnina. Það sé því mikil sókn á þessum markaði.

Á bás Íslandsstofu á ráðstefnunni eru fulltrúar fyrirtækjanna, Eldingar, Hotels of Iceland, Íshestar, Icelandair, Kea Hotels, Reykjavík Excursions, Snæland Travel og Terra Nova Iceland.