Avis og Budget bílaleiga á Íslandi fékk á dögunum verðlaun fyrir framúrskarandi þjónustu og árangur, annað árið í röð á árlegri ráðstefnu Avis Budget Group í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Avis og Budget á Íslandi.

Haft er eftir Stuart Liddle, forstöðumanni sérleyfislanda Avis Budget Group í fréttatilkynningunni, að Ísland sé fyrsta landið til að fá þessa viðurkenningu tvö ár í röð sem sýnir óvenju sterka stöðu Avis og Budget á Íslandi.

„Með tilnefningunni felst sú viðurkenning að vörumerkin tvö á Íslandi hafa sýnt mestan fjárhagslegan vöxt á alþjóðavísu og náð öllum markmiðum ársins ásamt því að vera með framúrskarandi þjónustu,“ er einnig tekið fram.

Enn fremur er haft eftir Hjálmari Péturssyni, forstjóra Avis Budget á Íslandi að vegna aukinnar samkeppni hafi fyrirtækið þurft að leggja allan sinn metnað í að standa undir væntingum og kröfum viðskiptavina. Því hafi megináhersla fyrirtækisins verið sú að bæta þjónustuferla og kröfur um gæði.