Einn fyrirlesara á Startup Iceland ráðstefnunni sem haldinn var í vikunni, er bandaríski fjárfestirinn og frumkvöðullinn Brad Burnham. Burnham er einn eigenda Union Square Ventures en hann var meðal fyrstu fjárfesta í fyrirtækjum á borð við Twitter, Tumblr, Kickstarter og Zynga.

Burnham hefur talað gegn því að hömlur verði settar á internetið eins og reynt hefur verið með löggjöf í Bandaríkjunum. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Burnham að mikil hætta sé á því að stjórnvöld stöðvi alla nýsköpun á netinu með því að setja á of harða löggjöf. Þetta eigi ekki bara við um löggjöf um internetið sjálft, heldur einnig um atriði sem koma til vegna þess sem internetið skapar.

Í fyrirlestri sínum í gær fjallaði Burnham um það sem hann kallar Internet Enterprise zone, sem í stuttu máli fjallar um það að búið sé til nokkurs konar frísvæði fyrir internetið.

„Það er tækifæri til að gera Ísland að nokkurs konar fríhöfn internetsins,“ segir Burnham aðspurður um fyrirlestur sinn.

„Færri lög auka svigrúmið fyrir nýsköpun. Þróunin í Bandaríkjunum er að verða sú að löggjafinn reynir að gera vef- og símafyrirtæki ábyrg. Það er mun hreinna umhverfi á Íslandi, þ.e. við erum ekki með þessa stóru hagsmunaaðila sem hafa mikil áhrif á stjórnmálamenn. Þess vegna hefur Ísland tækifæri til að verða fríhöfn fyrir netið. Við erum ekki að tala um geymslu á ólöglegu efni, alls ekki. En fólk þarf að fá að vera í friði fyrir stjórnvöldum þegar það er að athafnast með löglegum hætti á netinu. Með því að starfa í frjálsu umhverfi eins og á Íslandi skapast svigrúm fyrir aukna nýsköpun og aukna tækniþróun. Ísland gæti orðið stökkpallur fyrir frumkvöðla framtíðarinnar.“

Nánar er fjallað um ráðstefnuna og samtalið við Burnham í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.