Svokölluð lofthreinsiver hafa verið sífellt meira áberandi í umræðunni um loftslagsmál, sér í lagi eftir að stöðin Orca opnaði við Hellisheiði í byrjun september. Norska fyrirtækið Ocean GeoLoop hefur þróað eigin tækni til að fanga koldíoxíð, CO2, úr andrúmsloftinu og hyggst setja upp lofthreinsistöðvar úti á sjó. Aðstandendur fyrirtækisins halda því fram að aðferðin geti fangað margfalt meira koldíoxíð, hreinsað afgas frá stóriðju og krefjist umtalsvert minni raforkunotkun en sambærileg tækni. Þar að auki hefur verið þróuð virðiskeðja þar sem koldíoxíðið verður meðal annars nýtt til að framleiða lífmassa, þar á meðal þörungaræktun, og varminn á stöðvunum nýttur til að framleiða raforku.

Aðferðin felur í sér að færa kolefnismettaðan sjó niður á dýpi með tilheyrandi uppstreymi kolefnisrýrs sjávar sem dregur í sig CO2 úr andrúmsloftinu. Í einföldu máli flýtir tæknin fyrir náttúrulegri hringrás hafsins, sem tekur til sín koldíoxíð.

Íslenska ríkisstjórnin skrifaði nýlega undir viljayfirlýsingu um samstarf við Ocean GeoLoop og North Tech Energy. Skipaður hefur verið vinnuhópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta með það að markmiði að flýta leyfisferlum og kanna möguleg áhrif á vistkerfi sjávar og sannreyna afkastagetu stöðvanna.

Vill að Ísland og Noregur leiði þróunina

Maðurinn á bak við Ocean GeoLoop og tæknina er Norðmaðurinn Hans Gude Gudesen sem fór af stað með verkefnið árið 2006. Hann lýsir eindregnum vilja sínum að hefja þessa vegferð með Íslandi.

„Ég vil sjá Noreg og Ísland vinna saman á þessu sviði og koma með lausnir fyrir alheiminn. Ísland hefur veigamikla rödd í alþjóðasamstarfinu og Noregur ekki síður. Þegar þjóðirnar okkar vinna saman, þá mun restin af heiminum fylgjast náið með,“ segir Hans Gude. Hann er menntaður fornleifafræðingur og segir að menning þjóðanna sé sambærileg, viðhorfin svipuð og fólkið óhrætt við áskoranir. Honum finnst mikið til skyldleika Íslendinga og Norðmanna koma og hefur stór áform í huga fyrir þjóðirnar báðar.

„Mitt markmið er einfaldlega að gera Ísland að fyrsta kolefnishlutlausa landið í heimi. Ég vil aðstoða við að fjarlægja þau fjögur milljón tonn af CO2 sem losað er á Íslandi árlega.“

Hans Gude segir að tæknin sé tilbúin og þurfi ekki að þróa áfram. Aðferðafræðin sé sannreynd í gegnum rannsóknar- og tilraunastarf hjá norskum háskólum á síðustu fimmtán árum. Áætlað er að hver lofthreinsistöð Ocean Geoloop úti á sjó geti fangað upp undir eina milljón tonn af CO2 á ári en til samanburðar er afkastageta Orca stöðvarinnar á Hellisheiði um 4 þúsund tonn á ári.

Hans Gude telur að hægt verði að setja upp lofthreinsistöðvarnar hér á landi á næsta ári, en það er þó háð afhendingu og sendingum þeirra íhluta sem tæknin veltur á. Fyrirtækið setti upp fyrstu stöðina í Þrándheimsfirði í júní síðastliðnum en þar verður tæknin þaulprófuð á tólf mánaða tímabili.

Auk hinna augljósu áhrifa á umhverfið, þá sé einnig mikill fjárhagslegur ávinningur fyrir Ísland sem greiðir nú há gjöld vegna losunarheimilda. Hans Gude ítrekar að Ocean Geoloop sækist ekki eftir styrkjum frá ríkisstjórninni heldur muni tekjur af kolefnisheimildum og virðiskeðja fyrirtækisins standa undir kostnaðinum. Jafnvel geti stöðvarnar orðið sjálfbærar að fullu í framtíðinni með því að nýta varma við stöðvarnar til raforkuframleiðslu.

Geta hreinsað afgas frá stóriðjunni

Annað forskot sem Ocean Geoloop hefur umfram aðra tækni er getan til að hreinsa afgas frá stóriðjunni og fanga CO2, að sögn Geirs Hagalínssonar, forstjóra North Tech Energy sem er þjónustuaðili tækninnar á Íslandi. Geir nefnir sem dæmi að tæknin geti komið í veg fyrir alla losun og mengun við álverið og járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga innan fárra ára.

Ekki er þó búið að semja um samstarf við stóriðjuna á Íslandi að svo stöddu að sögn Geirs. Hann bindur þó vonir við ná samkomulagi um að koma tækninni fyrir í verksmiðjum hér á landi nú þegar viljayfirlýsingin við stjórnvöld liggur fyrir. Sem stendur er verið að smíða frumgerð að Ocean GeoLoop kolefnisupptökubúnaði sem verið er að setja upp í pappírsverksmiðju Norske Skog í Þrándheimi. Norske Skog hefur einnig gengið til liðs við hluthafahóp Ocean GeoLoop.

„Þessi tækni er mikið framfararspor. Við komum ekki til með að óska eftir neinum fjármunum frá hinu opinbera. Saman munum við afla tekna sem allir hasmunaaðilar eiga síðan að njóta góðs af. Á öllum fundum sem ég sit á, hvort sem það er hjá stjórnvöldum eða hjá einkafyrirtækjum, er það haft að orði að þetta sé klárlega eitt stærsta framfaraskref í tækniþróun tengt föngun á Co2 sem sést hefur hingað til. Það er vissulega þannig,“ segir Geir.

Ocean Geoloop
Ocean Geoloop
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Odd-Geir Lademo, forstjóri Ocean Geoloop og Hans Gude Gudesen, stofnandi Ocean Geoloop, ásamt Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs sem heimsótti höfuðstöðvar fyrirtækisins í ágúst síðastliðnum.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .