Um þessar mundir eru eitt ár síðan Datamarket var selt til bandaríska fyrirtækisins Qlik. Ólíkt mörgum öðrum íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sem seld eru til erlendra aðila var starfsemi Datamarket ekki flutt úr landi, heldur stendur þvert á móti til að efla hana. Ný skrifstofa Datamarket var opnuð í Sóltúni á dögunum og af því tilefni komu Anthony Deighton, tækni- og vörustjóri Qlik, og Mike Potter, framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu, til landsins. Viðskiptablaðið hitti þá Deighton og Potter í nýju skrifstofunni.

„Ég held að það séu tvær aðalástæður fyrir því hvers vegna við ákváðum að vera áfram á Íslandi,“ segir Deighton. „Í fyrsta lagi sjáum við vaxandi nýsköpunarhæfileika og samfélag frumkvöðla hér á landi. Hér er gott, klárt fólk og við viljum hagnýta okkur þær aðstæður. Satt best að segja þá er ekkert sérstaklega góð hugmynd að flytja þétt teymi þaðan sem það býr og eitthvert annað. Þvert á móti veitir aukin fjárfesting hér á landi betri aðgang að þeim hæfileikum sem hér eru til staðar.“

Í öðru lagi sé Reykjavík staðsett miðsvæðis. „Við erum með þróunarteymi á sex stöðum í heiminum - það eru nokkur í Norður-Ameríku og nokkur í Evrópu. Að hafa starfsemi á stað sem er bókstaflega í miðjunni er mjög gott fyrir okkur,“ segir Deighton.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .