Viðskiptasamningur við Kína mun stórauka verslun milli Kína og Íslands. Kaupmáttur fer vaxandi í Kína og neytendur þar vilja gjarnan innfluttan fisk, segir viðskiptafulltrúi Íslands í Peking í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins .

Pétur Jang Li, fulltrúi í íslenska sendiráðinu í Peking, sér fyrir mun meiri útflutning frá Íslandi eftir að samningur um fríverslun verður orðinn að veruleika.

En hvernig stendur á því að risaveldið Kína leggur það á sig að gera flókinn fríverslunarsamning við dvergríkið Ísland, spyr Spegillinn. Íslenskur markaður getur varla skipt Kínverja nokkru máli. Jang Li segir það rétt að Íslenskur markaður einn og sér sé ekki stór eða mjög mikilvægur fyrir stórveldi eins og Kína. Hins vegar líti kínversk yfirvöld til norðurhvelsins alls og að fríverslunarsamningur við Ísland geri Ísland að eins konar skiptistöð fyrir Kína á leiðinni inn á hina stóru markaði.