Guðni Jóhannesson orkumálastjóri segir að í raun séu engin takmörk fyrir því hvað hægt sé að vinna mikla jarðvarmaorku á Íslandi, sérstaklega í ljósi þróunar í bortækni. Lætur hann þessi orð falla í viðtali við bandaríska blaðið New York Times, sem er með ítarlega umfjöllun um orkumál á Íslandi. Guðni segir aftur á móti að það kalli á mikla fjárfestingu að vinna þessa orku.

Vegna þessa eigi Íslendingar að forðast alla drauma um að verða einhvers konar Sádí-Arabía jarðvarmaorkunnar og eigi að hafa í huga eigin takmarkanir. „Ef við flytjum út alla orku sem við núna framleiðum gætum við kannski séð Parísarborg fyrir raforku,“ segir hann í viðtalinu.

Í grein New York Times er fjallað um möguleika þá sem felast í lagningu sæstrengs til Skotlands og er m.a. rætt við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Hann segir að verkefnið lofi góðu. Ísland búi yfir mikilli raforku, en landsmenn séu fáir og geti því ekki notað hana alla. Því sé mjög eðlilegt að tengja landið við aðra markaði. Hann tekur þó fram að ekki verði farið í lagningu sæstrengs nema breið samstaða náist um málið.