Ísland gæti orðið einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á næsta ári þar sem verð á sumarferðum hefur lækkað um helming. Á fréttavef Times segir að leit eftir Íslandsferðum á Google hafi aukist um 60% á síðustu tveimur mánuðum.

Flestar fyrirspurnirnar á Google koma frá Bretlandi.

Times segir svo frá að eftir hrun fjármálakerfisins hafi íslensk ferðaþjónusta lækkað verð til að laða að fleiri ferðamenn. Veiking krónunnar gagnvart pundinu skiptir þar þó höfuðmáli. Greint er frá því að eitt pund jafngildi nú um 200 krónum samanborið við um 120 krónur í janúar.

Dæmi eru nefnd um verðlækkanir. Til að mynda hafi borgarferðir lækkað úr 800 pundum niður í tæplega 400 pund. Því er lýst að á Íslandi sé stórbrotin náttúra og að þar séu gallerí og listasöfn.

Niðursveiflan í efnahagslífinu bjóði því upp á nýja áfangastaði fyrir þá sem ella hefðu ekki efni á Íslandsferðum. Aldrei hafi verið eins hagstætt að heimsækja Ísland, eins og nú, sem hingað til hafi verið einn dýrasti áfangastaður Evrópu.