Í niðurlagi skýrslunnar „Í aðdraganda kjarasamninga" sem er samstarfsverkefni heildarsamtaka vinnumarkaðarins er vikið að langri hefð Norðurlandanna fyrir verklagi við gerð kjarasamninga og samskiptum milli samskipta launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda.

Þar segir að áherslan við gerð kjarasamninga í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hefur snúið að því að viðhalda samkeppnisstöðu landanna og stöðugu gengi gjaldmiðla. Því fordæmi er fylgt burtséð frá því hvenær gengið er að samningaborðinu auk þess sem að útflutningsiðnaðurinn hafi jafnan verið leiðandi um launaþróunina. „Þetta fyrirkomulag hefur í stórum dráttum staðist tímans tönn, jafnvel þótt gengi gjaldmiðla fljóti og verðbólgumarkmið leysi fastgengisstefnu af hólmi sem leiðarljós peningastefnu,“ segir orðrétt í skýrslunni og við því er bætt að gerð kjarasamninga á Íslandi víki í grundvallaratriðum frá þessari norrænu fyrirmynd.

Árið 2013 gáfu samtökin út aðra skýrslu þar sem þessi norræna fyrirmynd var krufin til mergjar. Þar kemur fram að kaupmáttur launa á Norðurlöndunum hafi aukist mjög undanfarna áratugi en frá árinu 1982 til 2012 hefur kaupmáttur í Noregi aukist um 84%, 78% í Finnlandi, 68% í Svíþjóð og 42% í Danmörku. Á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar jókst kaupmáttur meira en á þeim níunda þrátt fyrir að launahækkanir væru minni vegna þess að það dró úr verðbólgu. Í skýrslunni segir að niðurstöðurnar geti bent til þess að sterkt samband sé á milli aukins kaupmáttar og efnahagsstjórnar sem stuðlar að lágri verðbólgu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .