Íslenska hagkerfið er viðkvæmara en nokkuð annað nýmarkaðshagkerfi fyrir frekari þrengingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, samkvæmt svokallaðri viðkvæmnisvog (e. Liquidity Vulnerability Index) alþjóðlega matsfyrirtækisins Standard & Poor´s.

Viðkvæmnisvogin byggist að hluta til á því hversu háð ríkin eru innstreymi erlends fjármagns til að fjármagna halla á viðskiptum við útlönd.

Á eftir Íslandi – sem er sagt vera „heiðursmeðlimur” í hópnum sökum mikillar fylgni á milli íslenska hagkerfisins og nýmarkaðshagkerfa – kemur Líbanon, Rúmenía og Lettland.

Almennt eru nýmarkaðsríki í Austur-Evrópu talin viðkvæmari fyrir hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu heldur en nýmarkaðslönd í Asíu og Suður-Ameríku, sem mörg hver ráða yfir feykilegum gjaldeyrisvaraforða og eru auk þess með mikinn afgang i viðskiptum við önnur lönd.

Viðkvæmnisvog Standard & Poor´s leiðir jafnframt í ljós að viðkvæmustu ríkin gagnvart fjármálakreppu eru evrópsk. Í hópi tólf viðkvæmustu ríkjanna eru Líbanon og Suður-Afríka einu löndin fyrir utan Evrópu.

Chile stendur best að vígi af nýmarkaðsríkjunum fjörutíu til þess að standa af sér umrótið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, segir Standard & Poor´s, vegna mikils viðskiptaafgangs og góðrar skuldastöðu ríkisins.

Önnur nýmarkaðsríki sem eru lítt viðkvæm fyrir versnandi aðstæðum á fjármálamörkuðum eru Kína, Venesúela, Trínidad og Tóbagó og Nígería.

Rússland, Tékkland og Slóvakía eru hins vegar einu nýmarkaðsríkin í Evrópu sem mælast með neikvætt gildi, sem gefur til kynna að viðkvæmni sé undir meðaltali.

_____________________________________

Viðkvæmnisvog Standard & Poor´s. Jákvætt gildi gefur til kynna að viðkvæmni sé yfir meðaltali, en neikvætt gildi - þau sem eru innan sviga - að fjárhagsleg viðkvæmni sé undir meðaltali.

  • Iceland 2.04
  • Lebanon 1.61
  • Romania 1.59
  • Latvia 1.51
  • Turkey 1.16
  • Kazakhstan 1.11
  • Hungary 0.97
  • Bulgaria 0.92
  • Poland 0.92
  • Lithuania 0.89
  • South Africa 0.84
  • Ukraine 0.76
  • Tunisia 0.68
  • Colombia 0.47
  • Ecuador 0.44
  • Serbia 0.42
  • El Salvador 0.26
  • Egypt 0.10
  • India 0.10
  • Slovak Republic (0.01)
  • Brazil (0.04)
  • Morocco (0.22)
  • Pakistan (0.22)
  • Czech Republic (0.30)
  • Vietnam (0.36)
  • Dominican Republic (0.38)
  • Argentina (0.41)
  • Uruguay (0.46)
  • Thailand (0.68)
  • Mexico (0.78)
  • Malaysia (0.84)
  • Indonesia (0.86)
  • Philippines (0.92)
  • Russia (1.00)
  • China (1.08)
  • Venezuela (1.48)
  • Trinidad and Tobago (1.56)
  • Peru (1.61)
  • Nigeria (1.69)
  • Chile (1.90)