„Það eru farnar að hrúgast inn bókanir fyrir áramótin,“ segir Ragnhildur Gunnarsdóttir, gestamóttökustjóri á Hótel Borg, um aðsókn ferðamanna til landsins nú yfir áramótin. „Hótelið er nú þegar hálffullt fyrir áramótin og það er gott í júlímánuði.“ Ragnhildur segir eitthvað byrjað að bókast fyrir jólin líka. „Það er alveg óskaplega gaman að vinna hérna því það er alltaf svo mikið að gera. Fyrir áramótin í fyrra var hótelið fullt og það verður líklega svipað nú í ár,“ segir Ragnhildur.

Sömu sögu var að segja af 101 Hóteli. „Það gengur mjög vel að bóka fyrir áramótin, hótelið er nú þegar nánast hálffullt. Ég efast ekki um að við náum að fylla það fyrir áramótin,“ segir Elín Alfreðsdóttir í móttökunni á 101 Hóteli.