Kynningarstarf Icelandair og Ferðamálaráðs skilaði sér með skemmtilegum hætti í fyrradag þegar bresku dagblöðin Guardian og Observer kynntu úrslit í lesendakönnun sinni, en í henni var Ísland í fyrsta sæti yfir vinsælasta ferðamannalandið og Icelandair var valið fjórða besta flugfélagið á styttri vegalengdum.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair, segir þetta mikla viðurkenningu fyrir félagið. "Við höfum staðið fyrir landkynningarstarfi í Bretlandi um langa hríð og þessi lesendakosning er bæði staðfesting á ákveðnum árangri og ekki síður býr hún okkur til ný tækifæri. Við höfum undanfarin þrjú ár verið í efstu sætunum og það er mikilvægt að geta bent á svona óháða könnun þegar við erum að hvetja breska ferðamenn til að koma til Íslands. Við erum líka stolt af því að vera valin fjórða besta flugfélagið, eftir að hafa verið í 14 sæti í fyrra. Þar skjótum við mörgum aftur fyrir okkur á listanum og enn önnur félög sem eru
í samkeppni við okkur komast ekki á listann", segir Gunnar Már.

Næsta vor mun Icelandair bæta við nýjum áfangastað í Bretlandi, Manchester, og mun fljúga 21 ferð á viku frá Bretlandi til Íslands.