Greiningardeild Íslandsbanka hefur hækkað verðmat sitt á Kaupþingi banka um tæplega helming. Greiningardeildin metur félagið nú á 672 milljarða, sem jafngildir 1.014 krónum á hlut, en síðasta verðmat félagsins hljóðaði upp á 549 krónur á hlut.

Þegar þetta er skrifað er gengið 991 króna á hlut.

?Við mælum með að fjárfestar haldi bréfum í Kaupþingi banka til lengri tíma litið," segir greiningardeildin.

Vænt V/H hlutfall (markaðsverð hlutar deild með hagnaði á hlut) bankans er 14,9 og V/I hlutfallið ( markaðsverð hlutar deilt með innra virði, eða bókfærðu virði) er 3,46. Sambærilegar kennitölur í síðasta verðmati greiningardeildarinnar voru V/H hlutfallið 14,7 og V/I hlutfallið 2,4. Hærra V/I hlutfall skýrist vegna hærri væntri arðsemi eigin fjár. Í verðmatinu er reiknað með 26% arðsemi eigin fjár, en í síðasta verðamati var reiknað með 20%.

Framundan eru aukin umsvif, aðallega í Noregi og Finnlandi. Bankinn er einnig að vinna úr fjárfestingum í Danmörku og á Bretlandi, segir greiningardeilding og á þá við FIH og S&F. Reksturinn í þessum löndum er að mestu verðbréfamiðlun og eignastýring. Framundan er því uppbygging á útlánastarfsemi og fyrirtækjaráðgjöf, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Það er gert ráð fyrir því að kostnaðarhlutfall bankans verði 40%. Framlag í afskriftarreikning sem hlutfall af útlánum er áætlað 0,35%, til lengri tíma litið. Þetta hlutfall var 0,5% við síðasta verðmat. Það er gerð 10,6% nafnávöxtunarkrafa á frjálst sjóðstreymi en var 10,2% í síðasta verðmati.

Verðmatið reiknar ekki með ytri vexti, heldur byggir á rekstrarhorfum fyrir núverandi rekstur.