Nýleg lokun Nokia-verksmiðju í Þýskalandi er ein helsta ástæða þess að Íslendingar urðu fyrir valinu sem heiðursgestir Bókakaupstefnunnar í Frankfurt 2011 en ekki helstu keppinautar þeirra um heiðurinn, Finnar, að því fullyrt er í breska dagblaðinu The Guardian í dag. Ísland verður fyrst Norðurlanda til að skipa þennan sess í Frankfurt.

Eru Þjóðverjar sagðir vera ákaflega ósáttir við að finnski farsímarisinn Nokia ákvað fyrr á árinu að loka verksmiðjum sínum í Ruhr-dalnum, ákvörðun sem þýddi að 3 þúsund starfsmenn misstu vinnuna. Blaðið segir það hafa komið mjög á óvart að Ísland varð hlutskarpast og segja ástæðuna vera óánægju Þjóðverja með ákvörðun Finnana. Hafi viðbrögð við lokuninni verið mjög sterk í Þýskalandi að undanförnu. Þá greindi vb.is frá því á sinum tíma að nokkrir ævareiðir stjórnmálamenn hafi eyðilagt Nokia-farsíma sína opinberlega í mótmælaskyni.

Verksmiðjan verður flutt til Rúmeníu og er ein af ástæðunum fyrir gremju Þjóðverja sú að hið opinbera greiddi Nokia háa styrki á sínum tíma til að tryggja að verksmiðjan yrði sett upp í Ruhr-dalnum.

Finnar tilbúnir að greiða 1,2 milljarða

The Guardian vitnar í Iris Schwanck, forstöðumann finnska bókmenntakynningarsjóðs, sem fullyrðir að stjórnandi bókastefnunnar, Jürgen Boos, hafi viðurkennt í samtali við hana að andúðin sem ríki nú í Þýskalandi á Finnum hafi gert erfitt að velja Finnland sem heiðursþjóð árið 2011. „Þessi ákvörðun er mikil vonbrigði,” sagði Schwanck.

Bókakaupsstefnan í Frankfurt, eða Frankfurter Buchmesse, er sú stærsta í heimi og laðar að árlega hátt í 300 þúsund gesti. Finnland hefur í heilan áratug unnið að því að hreppa hnossið og var tilbúið að greiða 12 milljónir evra, eða um 1,2 milljarða króna, til að það yrði að veruleika. Ríkisstjórn Íslands samþykkti hins vegar fyrst á fundi í byrjun september í fyrra að sækjast eftir því að Ísland hlyti þennan sess.

Talsmaður Bókamessunnar neitaði því í samtali við The Guardian að ákvörðun Nokia eða gremja í garð fyrirtækisins og Finna hefði haft áhrif á þá ákvörðun að bjóða Íslendingum að verða höfuðdjásn kaupstefnunnar 2011.

The Guardian vitnar hins vegar í finnska dagblaðið Hufvudstadsbladet, sem fullyrðir að forsvarsmenn bókamessunnar hafi gert Finnum deginum ljósar að lokun verksmiðjunnar hefði haft áhrif á ákvörðunina. Hefðu Finnar raunar verið búnir að fá um það vilyrði seinasta haust að þeir myndu verða fyrir valinu.