*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 29. maí 2013 14:31

Íslandi stefnt fyrir EFTA-dómstól vegna skattlagningar

ESA telur íslenskar reglur hindra bæði staðfesturétt fyrirtækja og frjálst flæði fjármagns innan EES-ríkjanna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn fyrir að skattleggja óinnleystan hagnað fyrirtækja sem renna saman þvert á landamæri. Fram kemur í áliti ESA að íslenskar reglur hindri bæði staðfesturétt fyrirtækja og frjálst flæði fjármagns innan EES og geri skattareglur hér það að verkum að ekki er eins aðlaðandi fyrir fyrirtæki á Íslandi að nýta sér rétt sinn til þess að stofnsetja sig í öðrum EES ríkjum. 

ESA bendir á að samkvæmt íslenskum skattareglum eru íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki þvert á landamæri krafin um greiðslu skatts af öllum hagnaði tengdum eignum og hlutabréfum þegar þau flytja starfsemi sína frá Íslandi jafnvel þó hagnaðurinn hafi aldrei verið innleystur. Á sama tíma þurfi íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki innan Íslands ekki að greiða skatt af slíkum óinnleystum hagnaði.

ESA segir jafnframt að stjórnvöld þurfi að beita vægari úrræðum til þess að vernda skattlagningarrétt sinn. Í stað þess að krefja fyrirtæki um greiðslu skatts af óinnleystum hagnaði þegar þau flytja frá Íslandi gæti Ísland t.d. boðið fyrirtækjum að fresta greiðslu skattsins.

Álit Eftirlitsstofnunar EFTA