Vegna mikilla rakaskemmda í húsnæði Íslandsbanka við Kirkjusand voru höfuðstöðvarnar fluttar í Norðurturninn í Kópavogi. Ákvörðun um þetta var tekin á síðla vetrar 2016. Í dag hefur starfsemi bankans, sem var á fjórum stöðum, verið sameinuð undir einu þaki í Kópavogi.

Áður en rakaskemmdirnar komu í ljós hugðist Íslandsbanki byggja við húsið á Kirkjusandi og stækka þannig höfuðstöðvarnar á þeim stað. Skemmdirnar kollvörpuðu þessum áætlunum og nú hefur húsið við Kirkjusand staðið autt í nokkurn tíma. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafa þegar verið gerðar tvær skýrslur um ástand hússins og nú er beðið eftir niðurstöðum þriðju skýrslunnar.

Forsvarsmenn bankans eru að meta hvort húsið verði lagfært eða hvort það borgi sig einfaldlega að rífa það. Ekki hefur verið ákveðið hvor kosturinn verður fyrir valinu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bendir flest til þess að húsið verði rifið.
Húsið, sem stendur við Kirkjusand 2, er með stærra skrifstofuhúsnæði landsins eða rétt tæplega sjö þúsund fermetrar. Fasteignamatið fyrir árið 2018 hljóðar upp á ríflega 2,3 milljarða króna.

Áður en skemmdirnar komu í ljós hafði nýtt íbúðahverfi verið skipulagt á svæðinu í kringum bankahúsið. Þar er nú gert ráð fyrir nýjum  íbúðum sem teygja sig frá Kirkjusandi og að Kringlumýrarbraut. Þegar er hafin gatnagerð við nýja götu, sem ber heitið Hallgerðargata. Sú gata er austan megin við Íslandsbankahúsið og mun liggja frá Kirkjusandi að Sundlaugavegi nálægt gatnamótum Kringlumýrarbrautar.

Gamalt fiskverkunarhús

Húsið við Kirkjusand á sér ansi merka sögu eins og fram kemur í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem gefin var út í fyrra. Húsið var upphaflega byggt sem fiskverkunarhús og íshús um miðja síðustu öld.  Togaraútgerðarfélögin Júpíter hf. og Mars voru með starfsemi á svæðinu um árabil. Í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 keypti Ísfélagið frá Vestmannaeyjum frystihúsið og rak til ársins 1975 þegar Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) keypti eignirnar við Kirkjusand.

Á 9. áratugnum fór Sambandið í umfangsmiklar framkvæmdir. Húsið var stækkað og klætt með það fyrir augum að breyta því í skrifstofuhús undir nýjar höfuðstöðvar SÍS. Árið 1988 fór að halla undan fæti hjá Sambandinu og um svipað leyti og skrifstofuhúsnæðið var fullbúið þurfti það að láta eign sína af hendi. Íslandsbanki eignaðist síðar húsið og flutti höfuðstöðvar sínar þangað árið 1995.

Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur segir að húsið hafi „menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi Kirkjusand".

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .