Greiningardeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir að neysluverðsvísitalan hækki um 0,2% í janúar. Bent er hins vegar á að veruleg óvissa sé fyrir hendi.

Útsölur hafa umtalsverð áhrif til lækkunar vísitölunnar en greiningardeild Íslandsbanka gengur út frá að "dýpt" útsala verði svipuð í janúar og í sama mánuði á þessu ári. "Á móti vega hins vegar margir þættir
sem hafa áhrif til hækkunar. Íbúðaverð virðist hafa hækkað myndarlega
síðustu vikurnar og mun að líkindum hafa rík áhrif til hækkunar VNV í janúar."

Bent er á að árlegur útreikningur á fasteignamati muni nær örugglega leiða til stórhækkunar á fasteignagjöldum og hafa þannig veruleg áhrif til hækkunar á VNV. "Hinar ýmsu gjaldskrár hækka iðulega um áramót og ekki er ástæða til að ætla að önnur verði raunin núna. Þá var eldsneytisverð hér á landi nýlega hækkað og þróun á heimsmarkaðsverði bendir til frekari hækkunar áður en að næstu mælingu Hagstofu kemur. Einnig er útlit fyrir áframhaldandi hækkun matvöruverðs á næstu dögum og vikum."

Verðbólgan enn yfir þolmörkum

"Verðbólgan mun mælast 4,3% gangi spáin eftir og eykst úr 4,1%," segir í greiningardeild Íslandsbanka í sinni spá: "Áfram verður verðbólgan því yfir efri þolmörkum í markmiði Seðlabankans (4%) og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði hans."

Reikna má með því að verðbólgan muni hjaðna lítillega í febrúar og fari
jafnvel undir efri þolmörkin. Nokkur bið virðist þó í að verðbólgan nálgist
markmið Seðlabankans. Afar hæpið virðist til dæmis að krónan verði jafn
sterk á síðari hluta næsta árs og hún er nú.