Íslandsbanki hefur verið valinn besti bankinn á Íslandi fyrir árið 2016 af The Banker, tímariti sem gefið er út af The Financial Times. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka.

Að mati Banker þykir bankinn hafa náð eftirtektarverðum árangri á síðustu 12 mánuðum að mati dómnefndar. „Á þetta bæði við um fjárhag hans og rekstur og einnig um fjölmargar nýjungar og verkefni sem ráðist hefur verið í á tímabilinu. Má þar nefna nýtt greiðslumiðlunarapp, Kass, rafrænt greiðslumat og skjáspegilinn sem einfalda bankaviðskiptin.“  Verðlaunin voru veitt í gærkvöldi í London að viðstöddum fulltrúum yfir 100 banka víðs vegar um heiminn.

„Íslandsbanki var valinn besti bankinn af The Banker árið 2014 og hefur jafnframt verið valinn besti bankinn á Íslandi af Euromoney fjögur ár í röð,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að Íslandsbanki sé stoltur og ánægður með að fá þessa viðurkenningu frá jafn virtum aðila og The Banker. „Þetta er mikilvæg staðfesting á því að við erum á réttri leið og að þrotlaus vinna okkar framúrskarandi starfsfólks skili árangri. Fyrst og fremst er þetta okkur hvatning til að gera enn betur og halda áfram að veita bestu bankaþjónustu á Íslandi,“ er jafnframt haft eftir henni.