Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Íslandsbanka besta bankann á Íslandi, þriðja árið í röð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka. Þar segir að Euromoney hafi litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu íslensku bankanna við val sitt á besta bankanum eins og afkomu af reglulegri starfsemi, kostnaðarhagræðingu og getu til að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum og þörfum viðskiptavina .

„Við erum stolt af því að vera valinn besti bankinn á Íslandi þriðja árið í röð og er það frábæru starfsfólki Íslandsbanka að þakka,“ er haft eftir Birnu Einardsóttur bankastjóra Íslandsbanka í tilkynningunni. „Þessi verðlaun staðfesta það kraftmikla starf sem hefur verið unnið innan bankans undanfarin ár og sýna glögglega hvernig skýr markmiðasetning skilar sér í framúrskarandi þjónustu og betri rekstri. Okkur hefur tekist að sýna það í verki að það er hægt að vaxa á íslenskum bankamarkaði á sama tíma og við lækkum kostnað.“

Besti bankinn á alþjóðavísu að mati Euromoney er CIti en besti fjárfestingabankinn Morgan Stanley.