Íslandsbanki hagnaðist um 2,4 milljarða króna eftir skatta frá 15. október 2008 og fram að áramótum. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem var samþykktur 1. desember síðastliðinn en birtur í dag. Virðisrýrnun lána var 47 milljarðar króna og er stærstur hluti hennar vegna gengistryggðra útlána þar sem veiking krónunnar hafði neikvæð áhrif á greiðslugetu greiðslugetu margra lántakenda bankans.

Eiginfjárhlutfall bankans við lok tímabilsins var 10,36 prósent og heildarútlán til viðskiptavina og annarra fjármálafyrirtækja námu 513 milljörðum króna. Á sama tíma námu innlán bankans um 493 milljörðum króna. Eigið fé Íslandsbanka í árslok 2008 nam 68 milljörðum króna.