Miðengi ehf., eignarhaldsfélag Íslandsbanka, hefur selt 49% hlut sinn í Skeljungi og tengdum félögum, en félögin voru sett í opið söluferli 24. nóvember sl. Kaupandi er Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, en hún er hluthafi í Skel Investments ehf. sem er eigandi 51% hlutar í félögunum. Kaupverðið er trúnaðarmál, að því er fram kemur fréttatilkynningu frá Miðengi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að eigendendur 51% hlutarins, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Guðmundur Þórðarson og Birgir Þór Bielvedt, væru við það að eignast Skeljung eftir rúmlega hálfs árs söluferli. Það er nú endanlega frágengið.

Söluferlið var opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylltu skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, auk þess sem skilyrði var sett um verulegan fjárhagslegan styrk og viðeigandi þekkingu. Samtals skiluðu tuttugu aðilar inn trúnaðaryfirlýsingum og fengu afhent kynningargögn um félögin. Þrjú skuldbindandi tilboð bárust í félagið með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Tilboð voru opnuð þann 7. apríl sl. í viðurvist óháðs eftirlitsaðila sem vottaði efnisinnihald þeirra. Með sölunni lýkur endurskipulagningu Skeljungs sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið og vænta meirihlutaeigendur félagsins og Íslandsbanki áframhaldandi góðs samstarfs. Mikið starf hefur verið unnið innan Skeljungs á undanförnum misserum sem miðar að því að styrkja reksturinn. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hafði umsjón með söluferlinu fyrir Miðengi ehf.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, hluthafi í Skel Investments ehf. segir í fréttatilkynningu með sölunnar: ,,Ég er ánægð með þessa niðurstöðu. Eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki var Skeljungur orðið yfirskuldsett félag og endurskipulagning með aðkomu banka þörf. Í samstarfi við Íslandsbanka, hafa eigendur og stjórn félagsins lokið mikilvægum áfanga í enduruppbyggingu félagsins. Áframhaldandi uppbyggingarstarf hvílir á herðum starfsfólks Skeljungs, sem hefur sýnt mikla þolinmæði, traust og dugnað á erfiðum tímum. Það er ætlun okkar allra að styrkja félagið enn frekar og efla í samkeppni þannig að viðskiptavinir okkar njóti góðs af.”