Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19 sem talin er upprunnin í borginni Wuhan í Kína, hyggst Íslandsbanki koma til móts við þarfir viðskiptavina , meðal annars með því að bjóða þeim sem verða fyrir mestum áhrifum frystingu afborgana sinna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun býður Arion banki einstaklingum greiðsluhlé vegna útbreiðslu veirunnar á afborgunum íbúða en stjórnvöld hafa boðað ýmis konar lausafjárfyrirgreiðslu til bankanna og frestun skattgreiðslna fyrirtækja í tilefni aðstæðnanna.

Íslandsbanki segir að starfsfólk bankans muni halda áfram að eiga í góðum samskiptum við viðskiptavini meðan á þessu tímabili og fordæmalausu aðstæðum standi, en þeim tilmælum sé samt sem áður beint til viðskiptavina að nýta sér stafrænar lausnir í stað þess að koma í útibú.

Segir bankinn hægt að framkvæma allar helstu aðgerðir í appi og netbanka bankans, auk þess sem opið sé í bæði netspjalli og símaveri þjónustumiðstöðvar bankans.

„Þetta eru fordæmalausir tímar en við munum gera allt okkar til að sýna samfélagslega ábyrgð,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka. „Við fögnum aðgerðum stjórnvalda til að koma til móts við fyrirtæki og munum við einnig leggja áherslu á að leita farsælla lausna með einstaklingum og fyrirtækjum í gegnum þetta tímabundna ástand.“