Dregið hefur á líkum á því að stýrivextir verði hækkaðir á næsta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í nóvember. Ástæðan er minni verðbólga en búist var við, að sögn Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í dag er rifjað upp að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi sagt við síðustu vaxtaákvörðun 21. september að miðað við verðbólguhorfur yrði nauðsynlegt að hækka vexti í næsta mánuði. Spá Seðlabankans þá hljóðaði upp á að verðbólga myndi aukast talsvert allt fram á fyrsta fjórðung næsta árs þegar hún yrði 6,8% og að verðbólgan yrði fyrir 2,5% veðbólgumarkmiði bankans allt fram á þriðja ársfjórðung árið 2013.

Greiningin bendir á að talsverðar breytingar verði oft á spám Seðlabankans á milli útgáfa ársfjórðungsritsins Peningamála. Þannig hafi verðbólguspáin hækkuð verulega í ágúst frá spánni í apríl. Skýringin lá í verri verðbólguhorfum sökum meiri launahækkana í nýgerðum kjarasamningum en gert var ráð fyrir í apríl, meiri hækkun húsnæðis- og olíuverðs en áður var spáð, veikara gengi krónunnar, hratt hækkandi verðbólguvæntingar og snarpari viðsnúnings í innlendri eftirspurn.

„Lægri verðbólguspá segir að minni þörf sé á boðaðri vaxtahækkun. Spurningin er sú hvort að breytingin verði það mikil að hún rökstyðji að slaka peningastefnunnar sé haldið óbreyttum eða úr honum dregið með vaxtahækkun. Önnur spurning er síðan hvort breytt verðbólguspá verði þannig að hún kalli á annan tón í peningastefnunni sem hefur undanfarið verið að í ágúst hafi hafist hægfara vaxtahækkunarferill,“ að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.