Íslandsbanki hefur, í samstarfi við Opna háskólann í Háskólanum í Reykjavík, ákveðið að bjóða öllum fermingarbörnum á fjármálanámskeið en markmið þeirra er að bæta fjármálafærni ungmenna í raunhæfum og einföldum skrefum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en ein þeirra hugmynda sem kom fram frá viðskiptavinum í hugmyndakössum í útibúum bankans var að Íslandsbanki stæði fyrir fjármálafræðslu fyrir grunn- og framhaldsskólanema.

„Með þessu er Íslandsbanki að koma til móts við þær óskir,“ segir í tilkynningunni en fyrsta námskeiðið verður 16. apríl nk.

Í tilkynningunni kemur fram að markmið námskeiðanna er að bæta fjármálafærni ungmenna með skemmtilegum og uppbyggilegum hætti. Á námskeiðunum verður m.a. farið yfir hvernig á að lesa launaseðla, farið yfir mikilvægi þess að halda vel utan um fjármál sín og hvernig leggja megi fyrir með árangursríkum hætti og margt fleira.

Leiðbeinandi verður Þór Clausen, M.Sc. í fjármálum.  Námskeiðin verða í boði í Reykjavík og á landsbyggðinni og eru þátttakendum að kostnaðarlausu.