Frá og með 27. janúar geta fyrirtæki og einstaklingar í rekstri sem eru í viðskiptum við Íslandsbanka Fjármögnun fengið lækkun á höfuðstól eignaleigusamninga í erlendri mynt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en þar segir að lækkunin geti numið allt að 25% og sé breytileg eftir samsetningu mynta í hverjum samningi. Um leið er samningnum breytt úr erlendri mynt í íslenskar krónur með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.

Þá kemur fram að bankinn hafi þegar boðið upp á höfuðstólsleiðréttingar fyrir einstaklinga bæði á íbúðarlánum og bílafjármögnun. Næsta skref sé að bjóða fyrirtækjum og rekstraraðilum viðlíka úrræði, og er þetta fyrsti áfanginn í því ferli.

Höfuðstólslækkun á eignaleigusamningum felur meðal annars í sér að höfuðstóllinn lækkar og færist um leið í íslenskar krónur með breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Þá eru vaxtakjörin 12,1% breytilegir vextir  en veittur er 2,6 prósentustiga afsláttur af vöxtum fyrsta árið og verða þeir því 9,5% miðað við núverandi vaxtakjör Íslandsbanka Fjármögnunar.

Loks lækka greiðslur við höfuðstólslækkun í flestum tilvikum og hægt er að lækka greiðslur enn frekar með því að lengja samninginn um ¾ af eftirstöðvatíma samningsins þó að hámarki um 36 mánuði.