Íslandsbanki hefur fest kaup á öllum hlutum í Kreditkorti hf. Fyrir átti bankinn 55% hlut í fyrirtækinu samkvæmt fréttatilkynningu frá Íslandsbanka. Fyrri eigendur með Íslandsbanka voru nýi Landsbankinn (NBI) og Byr sparisjóður.

Nýja stjórn félagsins skipa Sigrún Ragna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, Haukur Skúlason, forstöðumaður á viðskiptabankasviði Íslandsbanka og Vilborg Lofts sem jafnframt er stjórnarformaður.  Í varastjórn eru Árni Geir Pálsson, Kristján Elvar Guðlaugsson og  Daníel Helgi Reynisson.

Martha Eiríksdóttir er framkvæmdastjóri Kreditkorta samkvæmt heimasíðu.

Í tilkynningu segir:

Íslandsbanki hefur ávallt lagt metnað í að vera í forystu í að bjóða öfluga og fjölbreytta þjónustu.  Með þessum kaupum vill  Íslandsbanki  styrkja  enn frekar stöðu sína í kortaútgáfu, auka við þekkingu og þjónustuframboð á þessu sviði og ná fram hagræðingu.

Ekkert kaupverð er gefið upp í fréttatilkynningunni. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009 átti nýi Landsbankinn 20% og Byr saprisjóður 16% í Kreditkortum hf.

Kreditkort hefur starfað hér í áratugi og gefur í dag út American Express og MasterCard kort.  Félagið varð sjálfstæður kortaútgefandi árið 2008, þegar fyrirrennara þess var skipt upp í tvö félög; annars vegar Kreditkort sem kortaútgefanda og hins vegar Borgun sem færsluhirði.