Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ekkert liggja fyrir um fyrirhugaða sölu ríkisins á Íslandsbanka, en til lengri tíma litið sé skynsamlegt að ríkið losi eignarhluti sína í bankakerfinu og greiði niður skuldir.

Glitnir hefur nú undirritað samning um að afhenda Seðlabanka Íslands og íslenska ríkinu stöðugleikaframlag slitabúsins. Hluti af stöðugleikaframlaginu er 95% hlutur Glitnis í Íslandsbanka.

Segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið að eins og sakir standi sé eingöngu verið að skoða sölu á 28% hlut í Landsbankanum.

„Verði tekin ákvörðun um þá sölu verður hún lögð fyrir Alþingi en Bankasýslan telur að að uppfylltum tilteknum skilyrðum gætu verið uppi aðstæður til sölu á þessu ári. Til lengri tíma vil ég sjá ríkið losa eignarhlut sinn í bönkunum og lækka skuldir og þannig vaxtagreiðslur, sem eru á þessu ári rúmlega 70 milljarðar.“