Hafnarfjörður
Hafnarfjörður
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt tillögu þess efnis að taka tilboði Íslandsbanka um lán upp á 13 milljarða króna. Með láninu verður erlent lán hjá þýska bankanum FMS, áður Depfa-banka, endurfjármagnað. Lánið var á gjalddaga á næsta ári. Tilboðið býður samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar.

Fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ að lántakan muni hafa nokkur áhrif. Hún mun m.a. lækka greiðslubyrði bæjarins og minnka gjaldeyrisáhættu sveitarfélagsins auk þess sem að eftir endurfjármögnun þýska lánsins verði allar skuldir Hafnarfjarðarbæjar í íslenskum krónum.

H.F. Verðbréf veittu sveitarfélaginu ráðgjöf við endurfjármögnunina, að því er segir í tilkynningu. Þar er jafnframt haft eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarstjóra að á kjörtímabilinu hafi núverandi meirihluti Vinstri grænna og Samfylkingar unnið að endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins. Sú vinna sé lykillinn að þeirri endurfjármögnun sem nú hafi verið tryggð með lánsloforði Íslandsbanka.

Í uppfærðu lánshæfismati Reitunnar ehf. sem kynnt var í bæjarráði í morgun segir að lánsloforðið styrki lánshæfismat bæjarins.