Sérfræðingar Íslandsbanka yfirfara nú niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli Umbúðamiðlunar en í tilkynningu frá bankanum segir að ljóst sé að hann hafi áhrif á tæplega 1.000 lán hjá bankanum, að mestu fyrirtækjalán.

Meirihluti lánanna sem dómurinn tekur til hafa fengið tilboð um endurútreikning og öll lán sem dómurinn tekur til verða endurreiknuð á ný ef aðstaða lántaka er sambærileg þeirri sem um var fjallað í dómum Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október á síðasta ári sem tóku til fullnaðarkvittana vegna ólögmætra lána.

Samtals mun Íslandsbanki endurreikna um 15.000 ólögmæt gengistryggð lán einstaklinga og fyrirtækja í samræmi við dóma Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir að því er segir í tilkynningunni. Bankinn hafði áður fallið frá þremur dómsmálum til að flýta endurútreikningi. Meðal þeirra lána sem eru endurreiknuð eru uppgreidd lán, bílalán og lán sem hafa farið í gegnum úrræði sem bankinn bauð upp á. Að því er segir í tilkynningunni hefur dómurinn ekki áhrif á lögmæti húsnæðislána Íslandsbanka í erlendri mynt því Hæstiréttur hafi skorið úr um að þau væru lögleg erlend lán þann 7. Júní 2012.

Áhrif dómsins á efnahagsreikning bankans munu verða metin og koma fram í ársreikningi fyrir árið 2012. Tekið er fram í tilkynningunni að eiginfjárstaða bankans sé sterk og muni eiginfjárhlutfallið áfram vera yfir þeim lágmörkum sem Fjármálaeftirlitið setur.