*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 20. febrúar 2006 11:46

Íslandsbanki er með nýtt verðmat á Össuri

mæla með kaupum

Ritstjórn

Greiningardeild Íslandsbanka hefur sent frá sér nýtt verðmat á Össuri hf. Niðurstaða verðmatsins er að virði Össurar er 736,1 milljónir bandaríkjadala. Umreiknað í krónur miðað við gengi bandaríkjadals á móti krónu 63,8 hljóðar verðmatið upp á 46,9 milljarða sem gefur verðmatsgengið 122,5. Síðasta verðmat var gert í júní 2005 og var niðurstaða þess verðmatsgengið 82,5

"Á grundvelli verðmatsins mælum við með að fjárfestar kaupi bréf í Össuri. Er það ráðgjöf okkar til lengri tíma litið. Við mælum með að fjárfestar markaðsvegi bréf Össurar í eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum og er það skoðun okkar til skemmri tíma, þ.e. 3-6 mánaða," segir greiningardeild Íslandsbanka.

Rekstur Össurar er stórbreyttur frá síðasta verðmati og endurspeglast það í breytingum á forsendum. Í verðmatinu er gert ráð fyrir að sala vaxi um 9% að meðaltali á spátímabilinu og er hækkuð um eitt 1 prósentustig frá fyrra verðmati. Gert er ráð fyrir um 6% vexti á tekjum til framtíðar. EBITDA framlegð er hækkuð á spátímabilinu úr 18,5% í fyrra verðmati í 22,4% að jafnaði nú. Vænt hækkun á framlegð kemur til vegna aukins vægis í stuðningstækjum. "Við eigum von á að fjárfesting í rekstrarfjármunum verði nálægt 3% af sölu á spátímabilinu. Gerð er 11,6% nafnávöxtunarkrafa til sjóðstreymis. Ávöxtunarkrafan er hækkuð um 0,7 prósentustig frá síðasta verðmati þegar gerð var 10,9% ávöxtunarkrafa," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.