Íslandsbanki fær ríflega milljarð króna í sinn hlut við sölu á öllu hlutafé Skeljungs og færeyska olíufélagsins P/F Magn til sjóðs á vegum  sjóðsstýringafélagsins Stefnis. Viðskiptablað Morgunblaðsins greinir frá þessu og segir að Íslandsbanki hafi eignast 30% hlut í Skeljungi á síðasta ári þegar bankinn gekk að veðum eignarhaldsfélags í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórðarsonar, aðaleigenda Skeljungs.

Svanhildur og Guðmundur keyptu 51% hlut í Skeljungi af Íslandsbanka haustið 2008. Þremur árum síðar stækkuðu þau hlut sinn og áttu félagið þá nánast að fullu.

Viðskiptablað Morgunblaðsins segist hafa heimildir fyrir því að kaupverð alls hlutafjár í Skeljungi sé 4 milljarðar króna og 3,9 milljarðar í P/F Magn. Það þýðir að Íslandsbanki fær 1,2 milljarða fyrir hlut sinn í Skeljungi.