Íslandbanki hefur fjármagnað kaup stjórnenda Rahbekfisk og RedSquare Invest á Rahbekfisk í Danmörku og hefur einnig fjárfest í félaginu, segir í tilkynningu frá bankanum. Kaupverðið var ekki gefið upp.

Seljandinn var hollenski fjárfestingarsjóðurinn Gilde, en Rahbekfisk selur fjölbreytt úrval af hágæða frosnum sjávarafurðum fyrir verslanir og veitingastaði.

?Ég er mjög ánægður með kaupin og með nýju samstarfsaðilana. Stuðningur RedSquare Invest og Íslandsbanka mun veita okkur tækifæri til að víkka út starfsemi félagsins bæði með innri vexti sem og í gegnum yfirtökur," sagði Morten Rahbek Hansen, forstjóri Rahbekfisk.

?Rahbekfisk hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár," segir Hlíf Sturludóttir hjá RedSquare Invest. "Stjórnendur fyrirtækisins hafa unnið mjög gott starf og við erum ánægð með að geta stutt þá og áætlanir þeirra um að þróa félagið enn frekar."

Skuldsett fjármögnun Íslandsbanka í Kaupmannahöfn og Reykjavík annaðist fjármögnun yfirtökunnar sem er gerð með samþættri fjármögnun, það er með hefðbundinni lánveitingu, millilagsfjármögnun og hlutafé, en Íslandsbanki mun eiga lítinn hlut í félaginu.
Fyrirtækaráðgjöf Íslandsbanka og Ernst & Young Corporate Finance í Danmörku voru ráðgjafar við kaupin.
Allt frá stofnun árið 1955 hefur Rahbekfisk lagt mikla áherslu á vöruþróun og er nú leiðandi framleiðandi á frosnum tilbúnum réttum fyrir Evrópumarkað, aðallega fiskréttum.

Starfsemi fyrirtækisins er í Fredericia og Hirsthals í Danmörku og starfa um 250 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Gert er ráð fyrir að velta fyrirtæksins verði rúmir fjórir milljarðar íslenskra króna á þessu ári og að framleiðsla verði um 12 þúsund tonn af fullunnum vörum.

Rahbek framleiðir bæði undir vörumerkjum annarra sem og eigin. Félagið er með sterka stöðu á Evrópumarkaði og um 85% af tekjum félagsins eru tilkomin vegna útflutnings, mest til Bretlands, Þýskalands og Sviss, segir í tilkynningunni.