Íslandsbanki hefur hlotið verðlaun fagvefritsins mtn-i fyrir alþjóðlega skuldabréfaútgáfu bankans. Verðlaunin eru veitt fyrir árangursríka markaðssetningu á Íslandsbanka sem útgefanda skuldabréfa á EMTN markaði. Gott samband við fjölda erlendra fjárfestingarbanka þykir eftirtektarvert sem og stuðningur þeirra við fjármögnun bankans. Þetta hefur skilað sér í fjölda vel heppnaðra skuldabréfaútgáfa sem hafa verið seldar fjölbreyttum hópi fjárfesta víðs vegar um Evrópu og Asíu segir í tilkynningu bankans.

Mikilvægasta fjármögnunarleið bankans

EMTN rammasamningur Íslandsbanka um alþjóðlega skuldabréfaútgáfu er mikilvægasta fjármögnunarleið bankans á alþjóðamarkaði. Heildarfjárhæð rammasamningsins er 3,5 milljarðar evra, um 300 milljarðar króna. Alþjóðleg skuldabréfaútgáfa bankans á þessu ári nemur um 2,1 milljarði evra, um 180 milljörðum króna. Fjármögnunin hefur farið fram með yfir 40 skuldabréfaútgáfum sem samtals 25 erlendir fjárfestingarbankar hafa haft umsjón með.

Mtn-i veitir í ár fimm verðlaun til skuldabréfaútgefenda sem þótt hafa skarað fram úr með einhverjum hætti á EMTN skuldabréfamarkaðnum og er þá einkum litið til nýjunga og árangurs. Árið 2004 hafa um 500 lántakendur gefið út skuldabréf á þessum markaði að fjárhæð um 1,1 triljón evra. Það er því einkar ánægjulegt að Íslandsbanki sé verðlaunaður fyrir stýringu skuldbréfaútgáfu sinnar á þessum stóra markaði. Aðrir útgefendur sem hlutu verðlaun mtn-i voru AXA, Commonwealth Bank of Australia, KBC Bank og Evrópski fjárfestingarbankinn.

Þrenn verðlaun á þessu sviði

Þetta er í þriðja sinn sem erlend fagtímarit verðlauna Íslandsbanka fyrir alþjóðlega skuldabréfaútgáfu. Árið 1999 þótti Euroweek bankinn vera sá aðili sem stóð best að alþjóðlegri skuldabréfaútgáfu af þeim sem nýir voru á EMTN markaðnum það árið. Euroweek veitti bankanum einnig viðurkenningu árið 2002 fyrir markaðsetningu á Íslandsbanka sem útgefanda skuldabréfa.