Að meðtöldum eignarhlut Íslandsbanka í BNbank þá hafa eigendur að yfir 90% hlutafjár samþykkt yfirtökutilboð Íslandsbanka í BNbank (Bolig- og Næringsbanken ASA) í Noregi. Íslandsbanki kann að meta þau jákvæðu viðbrögð sem hluthafar í BNbank hafa sýnt og þykir við hæfi að framlengja tilboðstímabilið um tvær vikur til þess að gefa þeim hluthöfum sem ekki hafa þegar samþykkt tilboðið kost á því að gera það áður en til innköllunar á bréfunum kemur.

Tilboðstímabilið mun því verða til og með 30. desember með sömu skilyrðum og áður hafa verið nefnd í tilboðsyfirliti sem sent hefur verið til hluthafa BNbank. Íslandsbanki hefur ekki fengið neinar athugasemdir frá samkeppnisyfirvöldum í Noregi eftir að lokafrestur þeirra til að gera athugasemdir rann út.

Eitt af þeim markmiðum sem Íslandsbanki setti sér með yfirtökutilboðinu var samþykki eigenda yfir 90% hlutafjár BNbank, en með 90% eignarhlut yrðu kaup Íslandsbanka á BNbank tryggð að fullu. Þó að samþykki hafi fengist eiga kaupin enn eftir að ganga eftir, en þau eru háð samþykki stjórnvalda í Noregi, auk þess sem áreiðanleikakönnun á eftir að fara fram.
Íslandsbanki hefur þegar lagt inn umsókn til norska fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins vegna kaupanna á BNbank. Þegar samþykki yfirvalda á kaupunum liggur fyrir mun Íslandsbanki óska eftir innköllun á þeim bréfum sem eftir kunna að standa, í samræmi við hlutafélagalög í Noregi.
Íslandsbanki hefur skilgreint Noreg og Ísland sem heimamarkaði sína og hyggst leggja áherslu á vöxt á norska markaðnum. BNbank er afar samkeppnishæft og vel rekið fjármálafyrirtæki, sem náð hefur góðum árangri og fellur vel að stefnu Íslandsbanka. Kaupin á BNbank munu tvöfalda útlán og innlán Íslandsbankasamstæðunnar.