Íslandsbanki hefur tekið ákvörðun um að fresta vaxtaendurskoðun verðtryggðra og erlendra húsnæðislána bankans sem eru á vaxtaendurskoðun á þessu ári, til ársins 2013. Íbúðalán sem Glitnir bauð uppá árið 2005 voru með endurskoðunarákvæði eftir fimm ár. Sú endurskoðun átti að koma til framkvæmda í ár og vaxtaumhverfi gjörbreytt frá því sem var fyrir fimm árum.

Í tilkynningu frá Íslandbanka segir að þetta sé gert til að koma til móts við þá viðskiptavini bankans sem eru með húsnæðislán og hafa þurft að takast á við hækkandi greiðslubyrði í kjölfarið á veikingu íslensku krónunnar og aukinni verðbólgu.

„Samkvæmt upphaflegum skilmálum á húsnæðislánum er vaxtaendurskoðun á 5 ára fresti.  Vextir á stórum hluta húsnæðislána bankans áttu því að vera endurskoðaðir í ár.   Ljóst er að hækka þyrfti vexti húsnæðislána, bæði verðtryggðra og í erlendri mynt, þar sem aðstæður á markaði eru mjög ólíkar þeim sem voru þegar lánin voru veitt. Í ljósi þess árferðis sem ríkir hjá heimilum í landinu var það ákvörðun bankans að gefa viðskiptavinum með húsnæðislán kost á því að fresta vaxtaendurskoðun í 3 ár til viðbótar.

Viðskiptavinir þurfa einungis að fylla út umsóknareyðublöð sem þeir fá send í pósti og skila til einhvers af útibúum bankans og er frestunin viðskiptavinum að kostnaðarlausu. Ef viðskiptavinir skila ekki inn umsókn um frestun vaxtaendurskoðunar hækka vextir á lánunum sjálfkrafa.  Hægt er að greiða upp lán að hluta eða í heild án þess að greiða uppgreiðslugjald, þar sem Íslandsbanki afnumdi það gjald tímabundið í febrúar 2009.

Viðskiptavinir geta sett sig í samband við starfsmenn í útibúum og þjónustuveri bankans til að fá frekari upplýsingar.  Einnig býður Íslandsbanki viðskiptavinum sínum uppá fjármálaviðtal þar sem farið er yfir heildarstöðu fjármála með rágjafa og skoðuð sérstaklega þau úrræði sem bankinn býður uppá til að aðstoða viðskiptavini sína.   Íslandsbanki býður m.a. upp á höfuðstólslækkun bæði á verðtryggðum og erlendum húsnæðislánum," segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.